Rannsóknir og tilraunir geta verið mjög skemmtilegar en þær krefjast árvekni og skipulagðra vinnubragða. Kæruleysi eða augnabliks hugsunarleysi getur verið dýrkeypt og valdið miklum skaða, bæði þér og umhverfinu.

Ef undirbúningur er góður eru litlar líkur á óvæntum atvikum. Það er því mjög mikilvægt að lesa vel allar verklýsingar og undirbúa sig vel áður en vinna hefst. Fyrsta skrefið í öllum undirbúningi er að kynna sér viðurkennt verklag og hvernig beri að umgangast þau efni sem koma við sögu. Ýmsar upplýsingar er að finna á umbúðum efnanna, t.d. suðumark, blossamark og gufuþrýsting en aðrar gagnlegar upplýsingar er auðveldast að finna á vefnum, sérstaklega upplýsingar um hve varasamt efnið er. Er efnið ætandi, oxandi eða ofnæmisvaldandi. Þessu þarf að gefa gaum. Óléttar konur ættu að vera sérstaklega varkárar og kynna sér varúðarmerki efna betur en aðrir því mörg efni geta haft skaðleg áhrif á fóstur.