Rannsóknastofan
Efnaöryggi
Rannsóknir og tilraunir geta verið mjög skemmtilegar en þær krefjast árvekni og skipulagðra vinnubragða. Kæruleysi eða augnabliks hugsunarleysi getur verið dýrkeypt og valdið miklum skaða, bæði þér og umhverfinu.
Ef undirbúningur er góður eru litlar líkur á óvæntum atvikum. Það er því mjög mikilvægt að lesa vel allar verklýsingar og undirbúa sig vel áður en vinna hefst. Fyrsta skrefið í öllum undirbúningi er að kynna sér viðurkennt verklag og hvernig beri að umgangast þau efni sem koma við sögu. Ýmsar upplýsingar er að finna á umbúðum efnanna, t.d. suðumark, blossamark og gufuþrýsting en aðrar gagnlegar upplýsingar er auðveldast að finna á vefnum, sérstaklega upplýsingar um hve varasamt efnið er. Er efnið ætandi, oxandi eða ofnæmisvaldandi. Þessu þarf að gefa gaum. Óléttar konur ættu að vera sérstaklega varkárar og kynna sér varúðarmerki efna betur en aðrir því mörg efni geta haft skaðleg áhrif á fóstur.
Ef ætlunin er að vinna með mjög hættuleg efni eins og krabbameinsvaldandi efni eða efni sem geta valdið stökkbreytingum eða fósturskaða, er mikilvægt að undirbúa rannsóknastofuna vel fyrir slíka vinnu. Látið samstarfsfólk vita hvað sé í undirbúningi og takmarkið síðan aðgang að herberginu. Öll eitruð efni skulu meðhöndluð á þartilgerðum svæðum, t.d. í sogskápum.
Öll notkun hættulegra efna er háð því að sá sem vinnur með þau hafi hlotið tilskilda þjálfun. Úrgangur
Hættulegum og/eða eitruðum efnum má aldrei hella í vaskinn. Efnaúrgang á að meðhöndla sem spilliefni, kynnið ykkur vel reglur um meðferð spilliefna.
Á flestum rannsóknastofum eru notað gas af einhverju tagi við rannsóknir. Þessvegna er líklegt að maður finni margar stærðir gaskúta inni á rannsóknastofum. Litlir kútar sem notaðir eru í tilraunir og stóra fyrir gös sem notuð eru fyrir stærri tækjabúnað.
Ekki eru allar lofttegundir eitraðar eða eldfimar en það er mikill þrýstingur á gaskútum og því þarf að fara að öllu með gát. Best er að geyma gaskúta utan veggja rannsóknastofunnar ef það er hægt og leiða gasið inn í leiðslum þangað sem notkunin fer fram. Hvort sem gaskútar eru innan eða utan rannsóknastofa þarf að ganga tryggilega frá þeim þannig að þeir geti ekki dottið á hliðina
Vökvar sem sjóða við -73°C eða lægra hitastig kallast lághitavökvar. Þetta eru efni eins og fljótandi köfnunarefni (N2), helíum (He) og argon (Ar) en einnig þurrís (CO2). Þessi efni geta valdið kalsári ef þau komast í snertingu við húð. Nota skal viðeigandi hanska og öryggisgleraugu þegar unnið er með þessa vökva.
Þegar efnin sleppa út í andrúmsloftið verður mjög hröð uppgufun en aðeins lítið magn vökva getur rutt frá sér miklu rúmmáli af lofti. Ef unnið er í litlu herbergi eða ef verið er að flytja efnið í lyftu eða bíl getur það minnkað súrefnismagn verulega á örstundu.
Alla vinnu með lághitavökva skal vinna hægt og yfirvegað svo enginn hljóti skaða af.
Notkun geislavirkra efna er háð samþykki og leyfi Geislavarna ríkisins. Jónandi geislun sem kemur m.a. frá geislavirkum efnum og röntgengeislum, getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu manna og umhverfi. Gerðar eru strangar kröfur um geymslu og meðhöndlun þessara efna. Jafnframt eru gerðar þær kröfur til þeirra sem vinna með geislavirk efni að þeir hafi sótt námskeið og kunni að meðhöndla slík efni.
Geymslu geislavirkra efna skal þannig háttað að sem minnst geislun komi frá efnunum. Það má tryggja með því að geyma geislavirka efnið í ísskáp eða frysti, ef um veika geislun er að ræða. Geislavirk efni eru flokkuð eftir því hvort þau senda frá sér alfa-, beta- eða gammageisla. Þau eru jafnframt flokkuð í fjóra áhættuflokka eftir því hve hættuleg þau eru, þar sem flokkur 4 er sá hættuminnsti. SI einingin sem notuð er til að mæla geislavirkni er Becquerel (Bq).
Best og eðlilegast er að geyma efni í þeim umbúðum sem þau komu í. Gríðarlega mörg efni eru notuð á rannsóknastofum innan Háskóla Íslands. Settar hafa verið upp sérstakar efnageymslur í ýmsum byggingum þar sem gengið er tryggilega frá þessum efnum. Inni á rannsóknastofum eru efnin geymd í hillum eða sérstökum, loftræstum, efnaskápum. Ekki má geyma flöskur og önnur efni í opnum hillum eða við borðbrún. Verði jarðskjálfti eða einhver rekur sig í, geta þær dottið og brotnað.
Öll efni verða að vera rétt merkt. Á upprunalegum umbúðum eru réttar merkingar, en ef búnar eru til lausnir eða þynningar í nýjum umbúðum verður að gæta að merkingum. Skrifa skal nafn lausnarinnar skýrt og greinilega á flöskuna og merkja hana með hættumerkjum ef hún er ætandi eða eldfim.
Þegar efni eru geymd saman skal hafa í huga hvað gerist ef þau myndu blandast saman. Sum efni má alls ekki geyma saman vegna þess að ef þau blandast myndast hættulegar gufur eða allt sprungið í loft upp.
Geymið aldrei meira af efnum en nauðsynlegt er á vinnuborði eða í sogskáp, notið efnaskápana. Gangið alltaf frá efnum aftur á þann stað sem þau voru tekin og sjáið til þess að engir taumar eða önnur efnamengun sé utan á umbúðunum.